Fermingarmyndatökur
Hér getur þú fundið allt um fermingarmyndatökur hjá okkur í Stúdíó Stund. Ég, Laufey Ósk, er ljósmyndarinn ykkar og hjá mér vinna Margrét og Hrefna, sem munu líklega afhenda ykkur myndirnar og vinna þær með mér. Myndatökur í kringum fermingar eru einar af mínum uppáhalds, þar sem þær geta verið svo fjölbreyttar og oft fæ ég að mynda alla fjölskylduna með.
Það eru nefnilega engar reglur til yfir fermingarmyndatökur og þið getið haft þetta nákvæmlega eins og þið viljið. Vissulega eru til hefðir sem við þekkjum sem hægt er að flétta inn í með myndum sem sína vel ykkar persónuleika. Þessi síða er ágætis upphafspunktur í áttina við að búa til ykkar drauma myndatöku. Næst væri frábært að ýmist hittast eða heyrast í síma til að tala saman um nánara skipulag.
Myndataka í stúdíói
Að mynda inni eða úti hefur hvort um sig sína kosti og ákvörðunin fer eftir ykkar óskum og persónuleika. Hvort tveggja finnst mér skemmtilegt og mjög flott.
Myndatökur inni í stúdíói standast að öllu eðlilegu fyrirfram ákveðna tímasetningu og taka oft styttri tíma. Stúdíómyndir af fermingarbörnum hafa verið til staðar í langan tíma og ef myndirnar eiga að hanga með myndum af eldri systkinum eða frændsystkinum gætu þær passað eitthvað betur saman. Birtuna frá ljósunum er hægt að stilla margan hátt og getur hún verið fjölbreytt á milli mynda, bæði jöfn eða með meiri skilum á milli ljóss og skugga, sem getur verið töff. Í stúdíói er pottþétt hægt að vera léttklæddur, t.d. ermalausum kjól/stuttermabol, auðvelt er að skipta um föt og greiðslan fýkur ekki til.
Myndataka úti
Að mynda úti tekur oft aðeins lengri tíma og úr þeim geta komið fjölbreyttari myndir. Þær myndatökur enda því oft á að kosta svolítið meira því fólki langar í fleiri og stærri myndir.
Útimyndatökur eru háðar veðri og því getur fyrirfram ákveðin tími myndatökunnar ekki staðist í 100% tilvika. Því þarf tímasetning þeirra að vera svolítið sveigjanleg milli daga. Ferlið er að við ákveðum dag og tíma með góðum fyrirvara, verðum svo í sambandi aftur þegar veðurspá er orðin marktæk og ákveðum endanlegan tíma.
Birtan er náttúruleg og rýmið mikið, þar sem t.d. yngri systkini geta gengið frekar frjáls um á meðan er verið að mynda aðalstjörnu dagsins.
Fataval
Fataval fyrir myndatökuna skiptir máli og ég hvet ykkur til að hugsa það fyrirfram. Það er oft sagt að fötin sé viss tjáning til annarra um hver við erum. Við vitum þó auðvitað öll að þau segja ekki alla söguna.
Fermingarfötin eru mikilvægustu fötin í þessarri myndatöku og þau verða líklega á flestum myndum. Við þau föt er hægt að bæta við hinum ýmsu aukahlutum ef þið viljið á einhverjum myndum. Það gæti til dæmis verið sólgleraugu, hattur, flott hálsmen, jakki eða heimilisgæludýrið til að gera myndirnar í fermingarfötunum fjölbreyttari.
Ég mæli svo með að taka með önnur föt í fermingarmyndatökuna fyrir fjölbreytni. Þá erum við helst að horfa á fínni hversdagsföt, uppáhaldsfötin þá stundina og/eða búninginn sem fylgir áhugamálinu, hvort sem það eru íþróttir eða annað. Ég mæli með að gefa fermingarkrökkunum mikið vægi í ákvörðunum þegar kemur að aukafötunum. Ykkur eru líka alltaf velkomið að koma með fleiri en eitt sett af fötum í myndatökuna og ég get hjálpað til við að velja úr það sem ég held að muni koma best út á myndum.
Í útmyndatökum mæli ég eindregið með nokkrum lögum af fötum. Þannig er hægt að breyta stílnum mikið með einföldum hætti, eins og að fara úr eða í jakka og peysu, án þess að þurfta að skipta um föt frá toppi til táar.
Hvað fjölskylduna varðar er gott að hugsa í hvaða stíl þið viljið hafa þær myndir. Spariföt og bros, hversdagsföt og ærslagangur, eitthvað þar á milli eða í bland. Venjan í fermingarmyndatökum er að aðeins fermingarbarnið skiptir um föt í myndatökunni svo það er gott að hugsa samsetninguna fyrir fjölskylduna fyrirfram.
Að þessu sögðu er mikilvægt að muna að markmiðið er að hverjum og einum líði sem best því það mun skína í gegn á myndunum.
Hvenær er best að koma í myndatöku?
Flest koma í myndatöku einhvern annan dag en fermingardaginn sjálfan, það er oft nóg annað að gera þann dag. Ef þið viljið koma um helgi eða í kringum hátíðirnar, jól og páska, er gott að bóka með mjög góðum fyrirvara, jafnvel 3+ mánuðum fyrir. Myndatökur á virkum dögum, sem eru algengastar, er oft hægt að bóka með styttri fyrirvara.
Sum koma í myndatöku nálægt fermingardeginum, þegar stemmingin snýst enn um ferminguna. Önnur vilja koma á öðrum tíma, t.d. töluvert fyrir fermingu til að geta sýnt myndir á fermingardaginn eða um sumar fyrir betra veður og grænan gróður.
Förðun?
Ég mæli með að þau sem vilja fari í förðun fyrir myndatökuna. Ég hefði sjálf ekki getað trúað því hvað það munar miklu en reynsla síðustu ára hefur sýnt mér að faglega framkvæmd förðun gerir mikið fyrir lokaútkomu myndanna. Einnig lærði ég þegar ég fór sjálf í myndatökur hvað ég varð öruggari og leið vel af því að vita að förðunin sé í lagi. Snyrtistofan Eva og Metta snyrtistofa, báðar hér á Selfossi, bjóða upp á farðanir. Einnig eru nokkrir förðunarfræðingar á svæðinu á Facebook og instagram sem hægt er að heyra í, t.d. Elsie Kristinsdóttir, Elín Inga Jónsdóttir, Rannveig Óladóttir og Margrét Arnardóttir. Stelpurnar í Shay gætu líka gefið góð ráð ef þið farðið ykkur sjálf/ar.
Undirbúningur
Það er gott að huga vel að undirbúningi fyrir myndatökuna og reyna að mynda sér skoðun á hvað þið viljið. Ef það er mikið stress eða asi rétt fyrir myndatökuna gæti það sést á myndunum eða verið hluti af minningunni á bakvið myndirnar, og við viljum helst forðast það.
Engin pressa samt ☺
Ég vil hér gera mitt til að aðstoða ykkur við undirbúninginn fyrir myndatökuna.
Dagskrá
Skipulegðu myndatökudaginn fyrirfram. Gott er að gera ráð fyrir rúmum tíma ef þið ætlið að mæta á aðra staði áður, t.d. í greiðslu, förðun eða handsnyrtingu. Munið að gera ráð fyrir tíma til að borða og tannbursta eftir það.
Að taka til föt og aukahluti
Í vikunni fyrir myndatökuna, 5-10 dögum fyrir, er gott að gera lista yfir allt sem þú ætlar að taka með í myndatökuna og fötin sem fjölskyldan verður í. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir stærri fjölskyldur. Góður fyrirvari gefur þér tíma til að útvega eitt og annað sem gæti vantað eða setja föt í þvott eða hreinsun ef þess þarf.
Kvöldið áður er gott að fara aftur yfir listann. Finna allt til á tvo staði, annars vegar það sem fjölskyldan á að fara í og hins vegar það sem á að taka með. Pakka svo því sem á að taka með og setja út í bíl. Þannig gleymist ekkert daginn eftir þegar svo margt annað er að hugsa.
Það sem getur gleymst
Hér eru nokkur atriði sem hafa gleymst á síðustu árum í fermingarmyndatökum. Með því er ég þó ekki að segja að allt þetta sé nauðsynlegt né eigi við í öllum tilvikum og einnig væri örugglega hægt að bæta við einhverju sem ég er að gleyma. Sálmabók (ég er með kirtil), bolti, sokkar/skór/stuttbuxur með boltabúningum, belti, úr, bindisnæla, vasaklútur, sokkabuxur, naglalakk, hreinsa af gamalt naglalakk, klippa neglur, skartgripir og sokkar/toppur við aukaföt.