top of page
1135-13.jpg
1115-28.jpg
1161-14.jpg

Góð ráð fyrir hópmyndatöku

  • Að vera í myndatöku tekur lúmskt mikla orku. Því mæli ég með að allir séu óþreyttir og vel nærðir eins og hægt er, sérstaklega börn. 

  • Mikilvægt er að skipuleggja ekki myndatöku á venjulegum hvíldartíma ungra barna. Fyrir börn á leikskólaaldri mæli ég með myndatöku fyrri part dags.

  • Ef þið hafið tök á, gerið eitthvað skemmtilegt saman í kringum myndatökuna. Að eiga góða minningar saman frá deginum gerir myndirnar enn dýrmætari.

  • Myndatökur hjá mér eru skemmtilegar. Þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af uppstillingum eða svipbrigðum hópsins, það er mitt verkefni. Þið bara mætið, fylgið flæðinu og njótið.

Ráð um fatnað fyrir hópa í myndatöku

Samræmi í fatnaði skiptir meira máli eftir því sem hópurinn í myndatöku verður stærri.
Þó aldrei meira máli en hvernig fólki líður.

Svo fyrsta ráð er að öll séu í fötum sem þeim líður vel í, sjálfsörugg og sátt.

 

Í öðru lagi getur verið gott að ímynda sér viðburð fyrir fólk að miða við þegar þau velja sér föt, t.d. "afmæli um miðjan dag á sunnudegi" eða eitthvað svoleiðis, þá eru flestir í svipaðri stemningu.

 

Til að taka þetta skrefinu lengra að þá væri hægt að biðja hópinn um að halda sig við einhverja ákveðna liti. Formúlan sem reynist oft vel eru 3 grunnlitir og 0-1 litur (mögulega fleiri, ef hópurinn er litríkur í eðli sínu).

    Grunnlitir eru; svart, grátóna, ljóst, hvítt, gallaefni, ljósir/brúnir tónar og dökkbláir/blágráir falla líka hér undir. 

    Litir væru þá rautt, grænt, gult, blátt o.s.frv. í öllum tónum innan hvers litar.

Hver og einn þarf alls ekki að vera með "litinn" í sínum fötum, heldur einfaldlega að þeir sem eru í lit "mega" vera í þessum lit, t.d. börn eða fullorðnir sem vilja nota liti. Ég mæli þá með að velja þennan lit í samráði við þá manneskju í hópnum sem er líklegust til að vilja vera í lit.

 

Munstur eru í góðu lagi á meðan þau eru ekki of mörg mismunandi, ágætt að miða við 20-30% af heildarmyndinni í mesta lagi.

 

Fatnaður sem ég persónulega myndi ekki mæla með væru bolir með stórum myndum og merkjum (t.d. rokk bolir eða teiknimynda bolir), mjög sterkir litir (neon-litir, skærir litir), þverröndótt föt, merkt íþróttaföt/liðsföt (nema allir séu í þeirri stemmingu) og mjög víð/sniðlaus föt.

 

Að lokum þá finnst mér mikilvægt að það séu ekki allir eins þó að þið viljið vera eitthvað í stíl, nema hreinlega um einkennisklæðnað sé að ræða. Vegna þess að, aftur, þá er mikilvægast að hver sé í því sem þeim líður vel í, og það gerist ekki ef leiðbeiningar um fatnað eru of nákvæmar.

 

Fyrir þau sem nota farða mæli ég með að hafa svolítið aukalega af honum, miðað við venjulega daga. Lýsing í stúdíó myndatöku gerir oft minna úr farða en í raun er.

bottom of page